Hér er mýri, um mýri, frá manni, til mýrar er samvinnuverkefni þriðja árs nema í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands árið 2022. Verkið var sýnt í Slökkvistöðinni í Gufunesi og er hægt að nálgast frekari upplýsingar um verkið hér.
Mörg okkar tengja mýrar við þætti sem okkur þykja neikvæðir;
þær eru blautar, kaldar og erfiðar.
Við höfum gengið í gegnum mörg ólík skeið með mýrunum;
forðast þær, reynt að lifa með þeim, nýtt þær, breytt þeim og gengið yfir þær.
Fyrr á árum voru mýrar til ýmissa hluta nytsamlegar, þar voru fengnar lækningajurtir, mórinn úr þeim var notaður í húsbyggingu og barnamosi notaður bæði fyrir börn og fullorðna.
Um miðja síðustu öld var blómaskeið framræslu og voru bændur styrktir af ríkinu til þess að framræsa land til ræktunar. Þetta varð að endingu til þess að mun meira land var framræst heldur en var nýtt til ræktunar og er þetta talið vera einn helsti valdur losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.
Þessi þróun breytti ásýnd landsins og er í dag tiltölulega lítið eftir af óröskuðu votlendi.
Með aukinni þekkingu hefur það orðið ljóst að mögulegt er að sporna við þessari þróun með endurheimt votlendis. Með því að færa votlendi aftur í sína upprunarlegu mynd geta mýrarnar bundið kolefni á ný og boðið griðarstað fyrir fjölbreytt lífríki sem þangað leitar.
Verkefnið okkar ber heitið “Hér er mýri, um mýri, frá manni, til mýrar” og viljum við með því miðla þekkingu okkar á mýrum og efla tengsl allra við votlendið okkar.
Sýning og bókverk leiða okkur í gegnum Mýrarsetrið og er meginmarkmið þess að veita fræðslu um mýrar og að leyfa fólki á öllum aldri að upplifa fegurð þeirra.
Mýrarnar gegna mikilvægu hlutverki sem við viljum að sé öllum skýrt.
Við viljum endurræsa mýrarnar
3. ár vöruhönnun, 2022